Jónína Magnúsdóttir
Af leikskólamálum
Ástæðan fyrir því að við fullorðna fólkið erum beðin um að setja súrefnisgrímuna á okkur fyrst í flugvél áður en við setjum hana á börnin er einföld, ef þú ert ekki með súrefnið þá er líklegra að þú getir ekki hjálpað barninu. Líðan og aðstæður fullorðna hafa áhrif á börn meðvitað og ómeðvitað. Umönnunarstéttir eins og kennarar og hjúkrunarfræðingar eru líklegri til að brenna út í starfi.
Miklar kröfur eru gerðar til starfsfólks í leikskólum. Til þess að ráðast að rótum vandans er mikilvægt að draga úr kröfum sem gerðar eru á starfsfólk, því of miklar kröfur draga úr stjórn viðkomandi á starfinu. Ein megin ástæða þess að fólk brennur út í starfi er að það finnur að það hefur ekki stjórn. Því er mikilvægt að gefa fólki fleiri möguleika og aðstæður þar sem það getur haft stjórn á starfi sínu. Síðast en ekki síst er mikilvægt að veita starfsfólki stuðning í starfi. Ef þú finnur fyrir samkennd og tilfinningalegum stuðningi ertu líklegri að finnast þú frekar vera við stjórn.
Það er hagsmunamál fyrir börnin okkar að starfsfólki líði vel í starfi og geti þar af leiðandi sinnt gæðamenntun og þjónustu við börnin okkar. Hagsmunir starfsfólks og barna fara saman að þessu leiti.
Mönnun hefur ávallt verið áskorun fyrir leikskólastigið og nú er svo komið að hann er orðinn raunverulegur og á sumum stöðum á landinu farinn að bitna verulega á þjónustunni. Þá þurfum við að horfast í augu við að mögulegar ástæður mönnunarvanda geta verið starfsaðstæður og álag.
Við á Bæjarlistanum viljum sjá raunverulegan stuðning við starfsfólk sem vinnur með börnunum okkar í formi gagnvirkrar handleiðslu. Við höfum sett það í stefnuskrá okkar að vinna að því í samstarfi við stjórnendur stofnana að skoða í hvernig formi sá stuðningur gæti komið hvað best út fyrir starfsfólk. Einnig að koma á vinnuhópi sem finnur leiðir til að fjölga fagmenntuðu starfsfólki leikskólanna ásamt því að greina starfsaðstæður og bæta úr þeim. Með því erum við ekki að segja að starfsaðstæður og líðan starfsfólks séu slæmar. Þessar leiðir sem hér eru nefndar eru til þess fallnar að vera fyrirbyggjandi og draga úr mönnunarvanda.
Að því sögðu viljum við einnig koma því á framfæri að við viljum finna leiðir til að veita dagvistunarpláss frá því að fæðingarorlofi lýkur.
Við á Bæjarlistanum leggjum mikla áherslu á fræðslumál í okkar stefnuskrá. Við höfum þekkingu, hæfni og forystu til að halda vel utan um þann málaflokk í Suðurnesjabæ.
Jónína Magnúsdóttir skipar 1. sæti Bæjarlistans í Suðurnesjabæ
Fyrrverandi formaður skólanefndar Garðs 2014-2018
Núverandi aðalmaður í fræðsluráði Suðurnesjabæjar