Laufey Erlendsdóttir
Gott samfélag fyrir alla
Öll viljum við að börnin okkar vaxi og dafni vel og lifi við velferð, heilsu og hamingju sem lengsta ævi. Ef foreldrar eru eru spurðir hvers þeir óska fyrir börn sín, eru það þættir eins og hamingja, heilbrigði, siðferði og að geta tekið virkan þátt í lífinu og samfélaginu sem þeim þykja mikilvægastir. Að mínu mati þurfa foreldrar, skólar og samfélagið að vinna saman að mótun einstaklingsins. Mikilvægt er að horfa á þætti sem hjálpa ungmennum að þrífast, eins og þrautseigju, uppbyggileg áhugamál, hæfileika, persónuleikastyrkleika auk utanaðkomandi þátta eins og stuðnings frá fjölskyldunni og góðra fyrirmynda. Að stunda reglulega hreyfingu hefur víðtæk áhrif á líðan einstaklingsins eins og við þekkjum flest. Hún hefur áhrif á andlega og líkamlega líðan, gæði svefns, sjálfstraust og hefur verndandi áhrif gegn þunglyndi og kvíða. Það er einnig mjög mikilvægt fyrir alla að eiga vini, tilheyra hópi og finna sig velkomin í hópnum. Þetta á við um fólk á öllum aldri. Því er mikilvægt að allir aldurshópar hafi aðstæður og hvatningu til að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl.
Suðurnesjabær er heilsueflandi samfélag og snýst það um að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Auk þess á heilsa og líðan allra íbúa að vera í fyrirrúmi í allri stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum.
Því er mikilvægt að við leggjumst öll á eitt við að skapa heilsueflandi samfélag. Foreldrar og aðrir uppalendur þurfa að vera góðar fyrirmyndir, hvort sem um ræðir í hreyfingu, mataræði, heilbrigðum lifnaðarháttum, uppbyggilegum samskiptum, bóklestri eða í umferðinni. Besta forvörnin felst í því að læra af eigin reynslu í gegn um gleði og leik. Það er því mikilvægt að börn og ungmenni læri það snemma á lífsleiðinni að það felur í sér vellíðan að huga vel að heilsunni. Það er mun einfaldari leið en að predika um holla lifnaðarhætti. Bæjaryfirvöld þurfa hinsvegar að taka þátt í að skapa umhverfið. Aðstæður þurfa að vera góðar og hvetjandi fyrir alla að rækta útivist, hreyfingu og samveru. Því er mikilvægt að umhverfið sé vel skipulagt og hvetjandi með góðum og öruggum göngu- og hjólastígum, grænum svæðum og góðum leikvöllum. Þar kemur til ábyrgðar sveitarfélagsins.
Við á Bæjarlistanum teljum mikilvægt að setja í forgang góðar aðstæður í bæjarfélaginu okkar og auka forvarnir og hvatningu til allra aldurshópa um heilsueflandi lifnaðarhætti. Við viljum auka framboð íþróttagreina, styðja vel við íþróttafélögin í bænum, efla almenningsíþróttir og fjölga heilsueflandi úrræðum fyrir eldri borgara.
Bæjarlistinn í Suðurnesjabæ stendur fyrir faglega forystu í heilsueflandi samfélagi
Laufey Erlendsdóttir skipar 2. sæti á Bæjarlistanum í Suðurnesjabæ