Jón Gunnar Sæmundsson, 28 ára
Jón Gunnar er ættaður af Skaganum en uppalinn í Garði og stoltur Suðurnesjabæjarmaður í dag.
Hann er í sambúð með Evu Þóru Hartmannsdóttur, á tvo drengi sem báðir eru á leikskólanum Gefnarborg og annað barn á leiðinni. Einvarður er 6 ára og spilar fótbolta með Reyni/Víði, næstum því jafn góður og pabbi sinn. Elvar Már er 2 ára gleðigjafi.
Jón Gunnar kláraði grunnstig í vélstjórn og fór í framhaldi til Noregs á sjó, stundaði sjómennskuna þar í tvö ár bæði sem háseti og skipstjóri en við tók verkefnastjórnun síðastliðin fimm ár í höfuðborginni áður en hann flutti með fjölskylduna heim í Suðurnesjabæ þar sem hann hefur stýrt Skólaselinu í Gerðaskóla frá áramótum. Einnig er Jón mikill sveitardurgur og aðstoðar afa sinn hann Gunnar á Strönd í Vestur-landeyjum með búið eftir bestu getu.
Jón Gunnar er mikill Víðismaður og hefur alltaf verið, leikjahæsti leikmaður liðsins í dag og á nóg eftir, hann vill að félögin okkar tvö verði sameinuð í eitt og með því vera samkeppnishæfari á öllum sviðum.
Jón Gunnar er að stíga sín fyrstu skref í pólitík, óháður og beinn í baki. Afþreying er honum efst í huga, fyrir allan aldurshóp. Það þurfa allir að leika sér, ungir sem gamlir. Þar skiptir ferðamáti miklu máli enda erum við ekki öll bílstjórar, hér er rok og þörf á hópbifreið til aðstoðar.
Jón Gunnar hefur mikla reynslu af umhirðu garða og gróðursetningu, þar vill hann bæta vel í, bæði til skjóls og fegurðar.