Jónína Magnúsdóttir
Jónína Magnúsdóttir
Laufey Erlendsdóttir
Laufey Erlendsdóttir

Þarf að vera hefbundinn meiri- og minnihluti?

Bæjarlistinn er framboð sem er ekki háð eða tengt stjórnmálaflokkum á landsvísu. Á listanum situr áhugasamt fólk sem vill leggja sitt af mörkum til að vinna að hag bæjarins og bæjarbúa. Við teljum mikilvægt að hver einstaklingur vinni eftir sinni sannfæringu með hag samfélagsins fyrir brjósti fremur en stefnu stjórnmálaflokka. Sveitarstjórnarmál eru að mörgu leyti frábrugðin landsmálunum. Í Samþykkt um stjórn Suðurnesjabæjar er til dæmis ekki fjallað um meirihluta og minnihluta. Kjósendur velja sér níu fulltrúa til að stjórna málefnum bæjarins í fjögur ár og eru þeir fulltrúar sem valdir eru einungis bundnir af sanfæringu sinni við ákvarðanatöku. Hver veit nema í náinni framtíð hafi kjósendur val um að velja einungis einstaklinga í bæjarstjórn frekar en að kjósa þurfi ákveðna lista eða flokka.

Markmið framboðs Bæjarlistans í Suðurnesjabæ er að setja áhersluna á samfélagið og íbúa þess fyrst og fremst. Benda má á að í vel reknum fyrirtækjum er stjórn sem fer fyrir hagsmunum fyrirtækisins, þar er enginn meiri- og minnihluti, heldur teymi sem ræðir sig niður á bestu lausnirnar með hagsmuni fyrirtækisins að leiðarljósi. Ekki eru allir alltaf sammála en krafan er að ræða sig niður á lausn. Suðurnesjabær er ekkert annað en stórt fyrirtæki sem vinnur að hagsmunum bæjarbúa og þjónustu við þá. Því er engin sérstök ástæða að viðhafa pólitískan ágreining um þá þjónustu sem skiptir bæjarbúa mestu máli. Þess þá heldur er yfirleitt ekki mjög mikill munur á stefnuskrám framboða í bæjarstjórn.

En hvernig sjáum við þetta fyrir okkur?

Forseti bæjarstjórnar getur leitt málefnafundi allra kjörinna fulltrúa þar sem málefni á dagskrá bæjarstjórnarfundar eru reifuð og rædd. Allar upplýsingar liggja á borðum fyrir alla kjörna fulltrúa og ábyrgð og vinnuálag dreifist. Við val á fulltrúum í nefndir bæjarins ætti að leita til fólks eftir þekkingu, hæfileikum og áhuga þannig að fleiri nefndarmenn séu virkir og fleiri og fjölbreyttari skoðanir komi fram. Við sjáum strax að það muni auka skilvirkni og hag bæjarbúa. Það eru breyttir tímar í samfélagi nútímans, við þurfum miklu meira á því að halda að vinna að lausnum og standa saman. Verkefnin eru ærin og því er tíma bæjarfulltrúa mun betur varið í að vinna saman að málefnum bæjarins í stað hefðbundins fyrirkomulags um meirihluta og minnihluta.

Við í Bæjarlistanum í Suðurnesjabæ stöndum fyrir faglega forystu og hugrekki í ákvarðanatöku.

X við O í kosningum 14. maí 2022.

Jónína Magnúsdóttir skipar 1. sæti Bæjarlistans í Suðurnesjabæ

Laufey Erlendsdóttir skipar 2. sæti Bæjarlistans í Suðurnesjabæ